Ályktun stjórnar Samtaka fullveldissinna

Tafarlaus lausn á fjárhagsvanda heimila og fjölskyldna.


Það er sorglegt að sjá hvað núverandi ríkisstjórn, sem hefur verið við völd í nærri tvö ár, hefur sýnt vanda skuldugra heimila lítinn skilning þrátt fyrir mikil loforð. Hún nýtti tímann illa meðan á frystingu erlendra lána stóð og það helsta sem hún hefur gert er að fresta uppboðum á skuldugum heimilum. Sú ráðstöfun er aðeins frestur sem hefur safnað kostnaði á hendur íbúðareigenda. Öll önnur úrræði hafa reynst haldlítil.

Þær lausnir sem ríkið hefur stuðlað að er að gefa bönkunum sjálfræði um lausnir. Þær felast eingöngu í að gefa skuldara kost á fresti til að greiða vanskil eða greiðsludreifingar í skamman tíma. Ef mat bankanna er að skuldarinn hafi ekki greiðslugetu til lengri tíma er honum vísað til Ráðgjafastofu heimilanna sem ráðleggur honum að fara í Greiðsluaðlögun samningskrafna, en sú leið er ekkert annað en hálfgildings skuldafangelsi. Ef þessi leið er ekki farin, bíður lögtak og uppboð á eigninni með tilheyrandi kostnaði. Eftirstöðvar skuldanna eftir uppboð halda áfram á dráttarvöxtum sem lögfræðingar fá til innheimtu og heimilt er samkvæmt lögum að rukka allt til dauðadags. Umræðan hefur snúist að mestu um uppboð sem þegar eru komin til dómstóla, en sá fjöldi er aðeins lítill hluti þess sem framundan er.

Hin stóri vandi heimila er hækkun lána þeirra sem skapaðist vegna bankahrunsins og hrun krónunnar. Gengishrunið setti á stað fáránlega hækkun lánskjaravísitölu vegna hækkana á innfluttum vörum. Áhrifin af hruninu á afkomu fólks eru m.a. vegna;

  • Að lán heimila hafa hækkað á bilinu 40-100%.
  • Að laun hafa lækkað um 20-80% vegna atvinnuleysis og samdráttar í atvinnulífinu.
  • Framfærsla hækkað um 40% vegna verðhækkana vöru og þjónustu.
  • Ráðstöfunartekjur hafa minnkað um 10% vegna skattahækkana.

Þetta þýðir í stuttu máli að greiðslugeta almennings hefur hrunið. Frysting lána, dómar Hæstaréttar í gengislánum og tímabundin greiðsludreifing hefur seinkað því að fjármálastofnanir hafi hafið fulla innheimtu lána. Lán margra heimila eru komin langt yfir lækkandi eignarverð þeirra og greiðslugeta fullvinnandi fólks ræður ekki lengur við afborganir og framfærslu. Og framundan er enn skertur kaupmáttur vegna skattahækkana og skerðingu fjölskyldubóta. Það er þessi veruleiki sem blasir við tugþúsunda heimila og fyrir fjölskyldufólk með þessa skertu greiðslugetu er það óbærileg framtíðarsýn.

Það er við þessar aðstæður sem stjórnmálamenn geta komið að gagni. Það er í þeirra höndum að breyta leikreglum þegar nauðsynlegt er. Þeir eru kosnir af þjóðinni til að gæta velferðar hennar.

Enn og aftur þarf alþýðan að bera byrðar þess skaða sem valdastéttir skapa, en til þess að þjóðin sé fús til uppbyggingar þá verður að gæta þess að henni sé ekki ofgert.

Það er ekki of seint að grípa til aðgerða sem létta byrðar stór hluta fjölskyldufólks á Íslandi með aðferðum sem duga. Allir vita að erfiðleikar eru framundan en skapa verður fjölskyldum von og vissu um að þeim verði ekki gert að standa undir byrðum sem er þeim ofviða. Ef núverandi stjórnvöld láta hjá líða að tryggja það, verður að skipta um stjórnvöld. Til eftirtalinna aðgerða þarf að grípa til sem fyrst:

  • Koma á sjóði fyrir fjölskyldur sem eru ofhlaðnar skuldum. Sjóðurinn tekur eignir og skuldir heimilanna til vörslu tímabundið. Þannig má koma í veg fyrir að fjölskyldur séu bornar út af heimilum sínum.

Slíkur sjóður, sem yrði sjálfstæð stofnun í eigu og undir stjórn ríkisins, leysi til sín skuldir og eignir ofhlaðinna fjölskyldna eða kaupi íbúðir þeirra á uppboðum eða semji við lánastofnanir um kaup á þeim og leigi síðan áfram til fyrri eigenda á verði sem samrýmist fjárhagslegri getu fjölskyldnanna á meðan á kreppuástandinu stendur. Slíkur sjóður hefur allt aðrar forsendur til að semja við lánastofnanir en einstaklingar og að halda lánum í skilum og dráttarvaxtalausum. Fyrri eigandi getur síðan keypt eignina aftur síðar þegar efnahagslíf og þar með eignaverð er komið í eðlilegt horf og sjóðurinn þá jafnvel afskrifað hluta skuldanna ef þarf í samræmi við fjárhagslega getu sjóðsins og þann fjárstuðning sem ríkið getur gefið honum.

  • Með breytingum á lögum að tryggja að einstaklingar sem fara í Greiðsluaðlögun samningskrafna verði lausir undan kröfum umfram eignamat sem og ábyrgðarmenn á slíkum kröfum.

Það er ávinningur að einstaklingar komist í eðlilega virkni í samfélaginu sem fyrst eftir fjárhagsáföll. Samfélagið mun fljótt njóta skatttekna í stað þess að einstaklingurinn sé hundeltur af rukkurum og þori ekki að sýna eðlilegar tekjur. Það er líka eðlileg krafa að einstaklingar njóti sömu réttinda og lögaðilar þegar kemur að gjaldþroti. Tryggja þarf einnig að ábyrgðarmenn á lánum sem afskrifuð eru séu jafnfram lausir undan þeim ábyrgðum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband