Íslenskir stjórnmálamenn þyrftu að fara á námskeið til Sviss

Svisslendingar eru ánægðir með stöðu sína í Evrópu enda höfnuðu  þeir bæði ESB og EES-samningnum 

Doris Leuthard, forseti Sviss og efnahagsráðherra, segist ekki telja að breytingar verði  á stöðu Sviss gagnvart Evrópusambandinu eða EES. Landsmenn séu sáttir við mál eins og þau séu nú. Leuthard sat fund EFTA-ríkjanna í Reykjavík í dag. Leuthard segir Svisslendinga hafa langa reynslu af þátttöku í alþjóðastofnunum og margar hafi aðsetur í landinu. Sviss hafi kosið að standa utan EES en hafi meir en hundrað tvíhliða samninga við ESB. Frá þesssu segir RÚV í dag, falið innan um fréttir af einhverjum upphrópunum frá Össuri Skarphéðinssyni sem enga þýðingu hafa miðað við þá stórfrétt að EFTA var að undirrita fríverslunarsamning við Úkraínu. 

Íslendingar aftur á móti sitja uppi með nokkur þúsund tilskipanir frá ESB sem eru ekki umsemjanlegar tvíhliða af því Alþingi álpaðist til að samþykkja EES-samninginn rétt eftir að Svisslendingar höfnuðu honum. Þeir þekkja sína nágranna frá fornu fari. Eins og mönnum er kunnugt er í þessum tilskipanahaug regluverkið frá ESB um bankastarfsemina sem var helsta rót hrunsins hér 8. október 2008. Svisslendingar eru líka með ofvaxið bankakerfi en það hrundi ekki. 

Það merkilega við fréttir dagsins um ráðherrafundinn í Reykjavík er að EFTA var að gera enn einn mikilvægan fríverslunarsamning, í þetta sinn við Úkraínu, og að leggja drög að fleiri slíkum. EFTA eru fríverslunarsamtök sem Íslendingar hafa verið aðilar að í fjóra áratugi og eru ekki yfirþjóðleg með tilskipanavald eins og ESB hefur yfir EES-löndunum. EFTA hefur gert fríverslunarsamninga við margar þjóðir, þ.á.m. Kanada, og er stöðugt að stækka hóp fríverslunarlanda sem Ísland hefur þar með aðgang að.  

Verslun Íslands við  V-Evrópulönd stjórnast að mestu enn þann dag í dag af fríverslunarsamningi við ESB, að grunni til frá 1972, sem er hagstæður Íslandi og var EES-samningurinn því í raun óþarfur vegna verslunar við ESB. Árangur Sviss, sem hefur sitt laga- og reglusetningarvald óskert heima fyrir, er áhugaverður fyrir Ísland. Þar eð þeir eru ekki í EES eru þeir ekki undir eftirliti ESA, þeirrar að endemum frægu eftirlitsstofnunar ESB (þó hún sé kennd við EFTA sem er villandi), heldur semja tvíhliða um sín mál við ESB. Það er kominn tími til að senda íslenska stjórnmálamenn til Sviss á námskeið um hvernig lítil lönd vernda sitt fullveldi fyrir stórveldadraumum nágrannalanda.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband