Færsluflokkur: Evrópumál
14.1.2011 | 22:49
Hvað forðar okkur frá Icesave III?
Enn eina ferðina hefur ríkisstjórnin samið um kröfur Bretastjórnar á hendur íslenskum skattgreiðendum um að ábyrgjast innistæður í Landsbankanum í Bretlandi. Enn er niðurstaðan sú að upphæðin er óþekkt, ábyrgð ríkisins er viðurkennd í verki, vextirnir og skuldin sömuleiðis. Aðalsamningamaður ríkisstjórnarinnar kom í sjónvarpið og margendurtók þetta (---liability, interests, amount unknown---). Áhorfendur skyldu þá strax að Icesave-málið er enn fast í sama farinu og það hefur verið frá byrjun. Öllum leikum og lærðum er löngu orðið ljóst að það er engin ríkisábyrgð á Icesave samkvæmt lögum og reglum. Samt treysta íslensk stjórnvöld sér ekki til að standa á rétti skattgreiðenda og hafna kröfum Bretastjórnar. Þau hafa ekki einu sinni, á þeim tveim árum sem krafan hefur verið að velkjast hjá ríkisstjórn og alþingi, tekið saman og birt þegnum sínum og umheiminum þau borðleggjandi lagarök gegn kröfum Breta sem allan tímann hafa legið fyrir. Þann 10. janúar 2011 spyr InDefence-hópurinn, sem hvað skeleggast hefur barist fyrir rétti þjóðarinnar í málinu: Af hverju voru þjóðarhagsmunir ekki settir í forgrunn í þessari deilu?
14.1.2011 | 22:21
ESB-aðlögunin
ESB ætlast til að Ísland hefji strax upptöku ESB reglna áður en samningar um efniskafla hefjast.
ESB mun fylgjast náið með aðgerðum ríkisstjórnarinnar í vetur við að innleiða lög og reglur ESB. Ríkisstjórnin mun þurfa að setja fram fjölmörg lagafrumvörp í vetur til að uppfylla kröfur ESB.
Yfirlýsingar ESB frá því í sumar taka af allan vafa um hvernig aðlögunarferlið verður þrátt fyrir yfirlýsingar VG og SF um annað.
5.12.2010 | 13:19
Evrópuhugsjónin fer halloka
Bjarni Jónsson á góða grein.
Örlagatímar eru nú í Evrópu vegna bresta sameiginlegu myntarinnar á evrusvæðinu. Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), Herman van Rompuy, hefur lýst því yfir, að hrynji evran, þá líði ESB undir lok. Þessi ummæli vitna um sálarháska þeirra, sem telja Evrópumenn aðeins verða sáluhólpna, lúti þeir stjórnun og reglugerðasetningu miðlægs og sjálflægs skrifræðisbákns, sem lýtur takmörkuðu eða engu lýðræðislegu aðhaldi almennings í Evrópu. Þetta er ókræsileg Evrópuhugsjón, enda nær hún vart eyrum annarra en opinberra starfsmanna.
Smelltu hér til að lesa meira.
12.8.2010 | 16:28
Enn ein könnunin
Enn spyr Reykjavík síðdegis um afstöðu fólks til ESB-mála, og hafi þau þökk fyrir að gera sínar vefkannanir um þau málefni.
1.7.2010 | 17:49
Opinn félagsfundur
Staður: Salur G102 í HÍ, Gimli,
Tími. Laugardaginn 3 júlí kl. 11:00
Fundarefni, stutt erindi um:
Ef auðlindastjórnin flyst til Brussel ?
Orsakir skuldavanda þjóðríkja og hvaða áhrif hann kann að hafa á Evrusvæðið?
Hvar er endurreisn efnahagslífsins?
Almennar umræður
Starfið framundan: Umræður
25.6.2010 | 08:21
Íslenskir stjórnmálamenn þyrftu að fara á námskeið til Sviss
Svisslendingar eru ánægðir með stöðu sína í Evrópu enda höfnuðu þeir bæði ESB og EES-samningnum
Doris Leuthard, forseti Sviss og efnahagsráðherra, segist ekki telja að breytingar verði á stöðu Sviss gagnvart Evrópusambandinu eða EES. Landsmenn séu sáttir við mál eins og þau séu nú. Leuthard sat fund EFTA-ríkjanna í Reykjavík í dag. Leuthard segir Svisslendinga hafa langa reynslu af þátttöku í alþjóðastofnunum og margar hafi aðsetur í landinu. Sviss hafi kosið að standa utan EES en hafi meir en hundrað tvíhliða samninga við ESB. Frá þesssu segir RÚV í dag, falið innan um fréttir af einhverjum upphrópunum frá Össuri Skarphéðinssyni sem enga þýðingu hafa miðað við þá stórfrétt að EFTA var að undirrita fríverslunarsamning við Úkraínu.
Íslendingar aftur á móti sitja uppi með nokkur þúsund tilskipanir frá ESB sem eru ekki umsemjanlegar tvíhliða af því Alþingi álpaðist til að samþykkja EES-samninginn rétt eftir að Svisslendingar höfnuðu honum. Þeir þekkja sína nágranna frá fornu fari. Eins og mönnum er kunnugt er í þessum tilskipanahaug regluverkið frá ESB um bankastarfsemina sem var helsta rót hrunsins hér 8. október 2008. Svisslendingar eru líka með ofvaxið bankakerfi en það hrundi ekki.
Það merkilega við fréttir dagsins um ráðherrafundinn í Reykjavík er að EFTA var að gera enn einn mikilvægan fríverslunarsamning, í þetta sinn við Úkraínu, og að leggja drög að fleiri slíkum. EFTA eru fríverslunarsamtök sem Íslendingar hafa verið aðilar að í fjóra áratugi og eru ekki yfirþjóðleg með tilskipanavald eins og ESB hefur yfir EES-löndunum. EFTA hefur gert fríverslunarsamninga við margar þjóðir, þ.á.m. Kanada, og er stöðugt að stækka hóp fríverslunarlanda sem Ísland hefur þar með aðgang að.
Verslun Íslands við V-Evrópulönd stjórnast að mestu enn þann dag í dag af fríverslunarsamningi við ESB, að grunni til frá 1972, sem er hagstæður Íslandi og var EES-samningurinn því í raun óþarfur vegna verslunar við ESB. Árangur Sviss, sem hefur sitt laga- og reglusetningarvald óskert heima fyrir, er áhugaverður fyrir Ísland. Þar eð þeir eru ekki í EES eru þeir ekki undir eftirliti ESA, þeirrar að endemum frægu eftirlitsstofnunar ESB (þó hún sé kennd við EFTA sem er villandi), heldur semja tvíhliða um sín mál við ESB. Það er kominn tími til að senda íslenska stjórnmálamenn til Sviss á námskeið um hvernig lítil lönd vernda sitt fullveldi fyrir stórveldadraumum nágrannalanda.