Fundur Samtaka Fullveldissinna í Gimli, HÍ 3.júlí. 2010

Sigurbjörn Svavarsson flutti erindi sem nefndist: Ef auðlindastjórnin flyst til Brussel ?

Hann gerði grein fyrir hvernig aðstæður í sjávarútvegi mundu breytast gengi Ísland í ESB. Yfirstjórn fiskveiðanna flyttist þangað og yrði fiskveiðunum stjórnað samkvæmt reglum ESB um nýtingu sameiginlegra auðlinda. Og jafnvel þótt Íslendingar yrðu valdir til að hafa þar forystu um sjávarútvegsmál, eins og ESB-sinnar hafa verið að veifa, breytti það litlu um útkomuna fyrir Ísland. Stærri sjávarútvegs- og matvælafyrirtæki í Evrópu, mörg hver mjög stór og alþjóðleg, fengju þá heimild til að fjárfesta í íslenskum útgerðum. Það þýðir að veiðiheimildirnar fylgdu með og yrðu þaðan í frá á ráðstöfunarrétti erlendra aðila. Undanþágur yrðu aðeins tímabundnar. Viðskiptaaðilar útgerðanna yrðu í vaxandi mæli í ESB , s.s. fiskvinnslur, birgjar og skipa- og tækniþjónusta, og tekjurnar af viðskiptunum við útgerðirnar mundi flytjast að töluverðu leyti frá Íslandi. Vinnsla aflans flyttist í stórauknu mæli úr landi. Varðandi orkuauðlindirnar kom fram að ESB stefndi að einkavæðingu orkufyrirtækjanna, einum samtengdum markaði til að tryggja orkuaðgang í öllum hlutum ESB og þar með miðlæga yfirstjórn orkumála.


Í umræðum kom fram að virðisaukinn af sjávarútveginum fyrir Ísland mundi rýrna mikið við inngöngu í  ESB. Erlendar áhafnir með mun lægri laun yrðu á skipunum og kæmu því ekki sjómannalaunin inn í íslenskt hagkerfi eins og verið hefur. Fyrirtækin sem þjóna flotanum fengju mun minni verkefni og fiskvinnslan í landi mundi rýrna mikið.
Sérstaða sjávarútvegs, miðað við orkuframleiðslu til dæmis, er fólgin í að við innlimun landsins í ESB mun Ísland líklega missa megnið af virðisaukanum af sjávarútvegnum úr landi. Ekki er því rétt að ræða um allar auðlindir í sama orðinu. Megin keppikeflið hlýtur að vera að fullvinnsla fari fram í landinu úr öllum þeim hrávörum sem falla til. Orkuna verður jafnframt að nýta innanlands og útflutningur rafmagns um sæstreng kemur ekki til álita.

 

 

 Guðmundur Ásgeirsson flutti erindi sem nefndist  Orsakir skuldavanda þjóðríkja og hvaða áhrif hann kann að hafa á Evrusvæðið. Hann rakti hlutverk gjaldmiðla og þróun peningamálastjórnar.  Hann gerði grein fyrir efnahagsstjórntækjum sjálfstæðra og fullvalda ríkja með eigin gjaldmiðil og hvernig þau tengjast gjaldmiðlinum. Peningamálastjórn ásamt með fjárlagagerð hvers ríkis eru mikilvægustu efnahagsstjórntækin. Hann benti á að með því að taka upp aðra mynt mundi stór og mikilvægur hluti efnahagsstjórnunar á Íslandi færast úr landi. Hann lagði áherslu á að ekki sé til vondur gjaldmiðill heldur vond efnahagsstjórn. Hann nefndi vandamál landa evrusvæðisins þessu til stuðnings, þ.á.m. Grikklands sem hefur fjárlagagerð á eigin hendi en ekki peningamálastjórnun. Þar eð skuldavandi evrulandsins Grikklands snertir evrusvæðið verður efnahagsstjórn landsins, þ.á.m. fjárlagagerðin,  vandamál alls evrusvæðisins.


Í umræðum kom fram að hagstjórn og peningamálastjórn eru óaðskiljanlegar og að til eru mismunandi kerfi í gjaldmiðilsstjórn. Eftir hrunið þurfa Íslendingar að taka alla efnahagsstjórnunina til gagngerðar skoðunar þar með peningamálastjórnina einnig.
Kom fram hjá Lofti Altice Þorsteinssyni að peningastefnur eru einungis tvær: torgreind peningastefna (discretionary monetary policy) og reglu-bundin peningastefna (rule-bound monetary policy). Svo nefnd peningastefnunefnd hjá Seðlabankanum er grín. Mikilvægt er fyrir Íslendinga að skilja, að mikill munur er á peningastjórn smárra hagkerfa og stórra. Lítil hagkerfi þola ekki gengissveiflur, en þær skipta stór hagkerfi engu máli. Ef litlu hagkerfi er ætlað að ná stöðugleika, er mikilvægt að festa gjaldmiðilinn við alþjóðlega viðurkennd verðmæti, eins og US Dollar eða gull.  Slík festing er einungis möguleg með reglu-bundinni peningastefnu, sem kallar á að Seðlabankinn verði lagður niður og peninga-útgáfa verði í höndum myntráðs.

 

 

 Friðrik Daníelsson flutti erindi sem nefndist Hvar er endurreisn efnahagslífsins?

Hann lýsti hvernig allir viðskiptabankar og fjárfestingarsjóðir í eigu þjóðarinnar hurfu í aðdraganda og í hruninu sjálfu og urðu þrotabú þriggja fallinna banka. Enginn veit hverjir munu í framtíðinni eiga bankana  sem eru reistir á rústum hrunsins  né heldur er vitað hvaða stefnu þeir munu fylgja eða hvernig þeir munu þjóna Íslendingum. Ríkið hefur hvorki stofnað nýjan viðskiptabanka né fjárfestingalánasjóð í þjóðareigu sem komið geta í stað þeirra sem þjónuðu atvinnulífi á forræði landsmanna. Ekki hafa heldur verið tilburðir til að endurreisa ríkisfyrirtæki sem urðu einkavæðingunni eða hruninu að bráð, s.s áburðarverksmiðjuna og strandflutningana. Engin stefna hefur verið tekin um nýtingu orkulindanna og  eru verktakar og orkufyrirtæki að rýrna hratt og kunnáttan að fara úr landi og þynnast út.  Fyrirtæki sem vilja byggja upp iðnað fá misvísandi svör og engin áform eru um að byggja upp iðnað í eigu Íslendinga. Ný lagasetning um fjármálastarfsemina er fálmkennd og óhnitmiðuð. Endurreisn ríkissjóðs er ekki líkleg nema hafnað verði ólöglegri Icesaveábyrgð. Einnig þarf að krefja Bretastjórn bóta fyrir kyrrsetningu þjóðareigna og óhróður. Áherslan í viðskiptamálum er á að taka upp viðskiptahöft ESB við umheiminn þó að Ísland sé aðili að EFTA sem vinnur stöðugt að fríverslun við umheiminn utan sem innan Evrópu. EFTA er sá vettvangur sem Ísland getur unnið að sínum viðskiptamálum á við ESB. Endurreisn lýðræðisins gengur hægt og virðist stjórnlagaþing ótímabær sýndaraðgerð en breytiungar á stjórnlögum þurfa langa umræðu og skoðun. Einfaldar lagabreytingar gætu hafið endurreisn lýðræðisins án tafar en engar slíkar hafa verið gerðar.


Í umræðum kom fram að EES-samningurinn kemur í veg fyrir endurreisnina, m.a að hægt sé að setja nýjan lagaramma um fjármálastarfsemina sem hentar hérlendis, einnig að hægt sé að halda orkufyrirtækjunum í almannaeigu og afnema neyðarlögin með vel ígrundaðri lagasetningu til frambúðarnota.
Ísland þarf að segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Að líkindum munum við verða neyddir til að yfirgefa EES, vegna Icesave-kúgunarinnar. Fyrirmynd okkar er Sviss með sinn tvíhliða viðskiptasamning við ESB. Í hverju málinu á fætur öðru hefur EES brugðið fyrir okkur fæti og við höfum leiðst til ógæfulegra ákvarðana vegna EES, eins og til dæmis Schengen samninginn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband