2.2.2011 | 15:14
Samþykkt stjórnar samtaka fullveldissinna um Icesave III
Enn og aftur hefur ríkisstjórnin gert samning (Icesave III) við Breta og Hollendinga um kröfur þeirra á hendur ríkissjóði Íslands að ábyrgjast innistæður Icesave-reikninga í Landsbankanum. Enn er niðurstaðan sú að upphæðin sem lendir á íslenskum skattgreiðendum er óþekkt og er því samningurinn andstæður anda stjórnarskrárinnar um ríkisútgjöld en ábyrgð ríkisins er viðurkennd í verki sem vaxtabær og lögleg skuld. Öllum leikum og lærðum er löngu orðið ljóst að það er engin ríkisábyrgð á Icesave samkvæmt lögum og reglugerðum. Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6 mars 2010 veit umheimurinn að íslenskir skattgreiðendur ætla sér ekki að taka ábyrgð á óráðsíu einkabanka og hefur staðfesta landsmanna í Icesave-málinu eflt virðingu og traust Íslands þrátt fyrir hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar um hið gagnstæða. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki leitað eftir bótum frá Bretastjórn fyrir beitingu hryðjuverkalaga sem olli íslenska ríkinu og þegnum þess miklum skaða.
Samtök fullveldissinna telja sjálfsagt að semja um að nýta sem best eignir sem innheimtast í bú Landsbankans til greiðslu Icesave.
Þær yfirlýsingar sem íslenskir ráðherrar voru neyddir með hótunum til að gefa gagnvart ESB í þvingaðri stöðu rétt eftir hrun ber íslenskum stjórnvöldum að ómerkja.
Ríkisstjórnin hefur sýnt í þrígang að hún virðir ekki vilja landsmanna og treystir sér þar að auki ekki til að fara eftir gildandi lögum og reglum og standa á rétti íslenska ríkisins. Hún er því vanhæf og ætti að segja af sér.
Stjórn samtaka fullveldissinna 1.2.2011
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook